"Ég er að goma heim ástinn!"
Það gladdi óneitanlega mitt litla hjarta í gær þegar átrúnaðargoð margra Íslendinga, Leoncie, mætti hress og kát í 70-mínútur (af öllum þáttum!). Leoncie var klædd í öskrandi bleik föt (sem hún sjálf kallaði sexý) og hélt því m.a. fram að hún væri ...
ekki klikkuð
ekki rasisti
ekki að flýja land
Ég trúi nú bara þessu síðasta. Hún hélt því líka fram að hún myndi aldrei leggjast svo lágt að bera brjóst sitt í auglýsingaskyni eins og Janet Jackson gerði hér forðum daga, enda er Leoncie svo sexý fyrir að hún þarf ekki á svoleiðis að halda. Janet Jackson er nefnilega ekki sex-icon í USA. Eitthvað virðist minni frk. Leoncie vera að bregðast henni, því mig minnir óneitanlega að hún hafi berað annað brjóst sitt (það vinstra, meira að segja)þegar hún söng á árshátíð MH fyrir tveimur árum, rétt áður en hún datt ofan í trommusettið.
Á þessum tíma, fyrir tveimur árum, var ég gríðarlegur Leoncie-aðdáandi og kunni ófá lög hennar utanað enda ekki margar söngkonur sem geta líkt sér við Shirley Bassey á sama disk og þær syngja um "trouser snake" hjá "the new teenage boy in town." En þrátt fyrir skemmtilegt smekkleysi Leoncie, þá verð ég bara að viðurkenna að það er orðið frekar þreytandi að verja hana. Í stað þess að vera hrókur alls fagnaðar og endalaust fyndin og skemmtileg er Leoncie orðin þreytandi, pirrandi og - það sem verra er - ÚTI UM ALLT! Maður getur varla kveikt á sjónvarpinu eða útvarpinu án þess að heyra í henni eða Kópavogslaginu hennar (sem er reyndar yndislegt í alla staði og undirstrikar geðsýki konunnar - þetta finnst henni stórkostleg tónlist!) Hún hefur náð að stökkbreytast úr underground-aðhlátursefni yfir í mainstream-skemmtara sem kemur fram hjá Íslandi í bítið og Gísla Marteini. GÍSLA MARTEINI! Og ég er ekkert viss um að það sé gott. Hún fær allaveganna meiri pressu fyrir vikið.
En er þessi mikla pressa það sem hún vill? Persónulega finnst mér að sketchinn um hana í Spaugstofunni hafi formlega verið að bjóða hana velkomna í meinstrímið, sem og kosning hennar sem ein verst klædda kona Íslands (ég meina, hún var þarna með Björk og Birgittu! Hvernig getur hún kvartað?!) En öllu þessu tekur Leoncie sem gríðarlega persónulegri móðgun og hótar hún kærum á allt og alla. Ég meina við hverju býst konan eiginlega? Áður en ég fæ á mig kæru fyrir kynþáttahatur, þá vil ég samt koma því á framfæri að ég man ekki eftir skemmtilegra celebrity hérna á Íslandi og konan kann að svara fyrir sig. Eða svarar a.m.k. skemmtilega fyrir sig.
Ég get líka ómögulega hamið mig um að birta hér lítinn textabút eftir konuna. Ég man ekki hvað lagið heitir en það má finna á meistaraverkinu Sexy Loverboy.
"Ástin!
Ég er að koma heim
Ástin!
Vertu tilbúinn undir sænginni - ástin!
Ég lofa þér að nudda þig og gefa þér fullnægingu!
Sætur!" (C) Icy-Spicy Leoncie
Og núna birti ég textann með leonciestafsetningu, svo þið getið betur ímyndað ykkur hvernig hann hljómar:
"Ástinn!
Ég er að goma heim
Ástinn!
Verddu tilbúin úndír sænginni - ástinn!
Ég lova ðér að núdda þig og gefa þér fúllnægíngú!
Sætú-ííííír (þarna fer hún svo hátt það "í" er eini bókstafurinn sem getur táknað hljóðið sem hún gefur frá sér.)" (C) Icy-Spicy Leoncie