10/18/2006

Einbeitingarleysi

Ég get ómögulega einbeitt mér að því að læra þegar sendingin mín stóra frá DVD Pacific er ekki ENNÞÁ komin! Þetta er farið að vera hálf dularfullt. Ég sé póstbílinn hérna fyrir utan á hverju kvöldi, bara hangandi og bíðandi. Ég er viss um að póstsendillinn sé að gera þetta til þess að kvelja mig. Hann situr inni í bíl hjá sér með pakkann minn við hliðina á sér og horfir í átt að eldhúsglugganum á íbúðinni minni. Situr og horfir og hlær innra með sér því hann veit að ég er fyrir innan að bíða.

Já, hlæðu bara, póstsendill! Ef ég verð ekki búinn að fá þennan pakka í síðasta lagi á mánudaginn næsta þá hringi ég í yfirboðara þína og athuga hvað í helvítinu sé í gangi! Þetta er að eyðileggja líf mitt og annarra í kring um mig. Spyrjið alla, það eina sem ég tala um er þessi pakki!

Ég held að ég sé hættur að lesa Saving Fish From Drowning eftir Amy Tan. Ekki það að bókin sé eitthvað léleg. Mér finnst ég bara hafa fengið allt úr henni sem ég þarf. Síðustu 50 blaðsíðurnar eða svo hafa verið ansi þurrar og ég verð að viðurkenna að ég hef engan áhuga á því að vita hvað gerist næst. Ég er samt meira en hálfnaður svo kannski ég haldi áfram seinna. Og ég sem var svo ánægður með hana í byrjun.

Ég byrjaði hinsvegar á Desperation eftir Stephen King í gær og hún byrjar alveg glæsilega. Lofar góðu.

En ég á ekki eftir að geta einbeitt mér að neinu þangað til pakkinn minn kemur. Let it be soon, let it be soon ...

10/10/2006

Mig langar að sjá ...

Þessar tvær heimildamyndir:

Shut Up and Sing - sem fjallar um amerísku hljómsveitina Dixie Chicks og þau hrikalegu viðbrögð sem hún fékk eftir að hafa dirfst að tala á móti George Bush og Íraksstríðinu opinberlega. Ég hef aldrei beint hlustað á stelpurnar í Dixie Chicks, enda er ég ekkert sérstaklega fyrir kántrýtónlist, en þessi mynd virðist mjög áhugaverð. Trailerinn sýnir okkur a.m.k. hversu ótrúlega langt sumir ameríkanar geta gengið í hatri sínu á einhverjum sem þeir eru ekki sammála. Alveg ótrúlegt.

Ég held alfarið með Dixie Chicks stelpunum. Þær sungu "Landslide" eftir Stevie Nicks á mjög flottan hátt og hafa spilað með Sheryl Crow, sem ég hef alltaf haldið mikið upp á. Hlakka til að sjá þessa mynd. Svo er hún gerð af tvöfalda óskarsverðlaunahafanum Barböru Kopple (who she?!) svo þetta ætti allt að vera í fínasta lagi.

Jesus Camp - Úff. Ég er alveg viss um að þessi mynd eigi eftir að vekja álíka viðbrögð og Bowling For Columbine eða Fahrenheit 911. Hérna var kvikmyndagerðarmönnum gefið fullt leyfi til að fylgjast með "búðum" fyrir kristin börn (í Ameríku, where else) þar sem þeim er kennt að vera hermenn guðs og eru látin tilbiðja pappaspjald með mynd af George einum Bush. Ennfremur falla þau til jarðar í trúarlegu losti, gráta trúarlegum tárum og eru að frelsast hingað og þangað. Alveg niður í fimm ára krakka.

Brjálaða konan sem stendur fyrir þessu er svo rugluð að hún er að taka Gunnar-í-Krossinum á þetta allt saman og hjálpar til við að auglýsa myndina, því all-publicity-is-good-publicity. Þetta er örugglega rétt hjá henni þegar litið er á "heildarmyndina", því ég vona að þessi mynd fletti ofan af því hversu brjálaðir ameríkanar geta verið þegar kemur að svona málum. Kannski verður einhver breyting á, líklegast ekki.

10/03/2006

Aldrei of seint að meika það!

Maður fyllist bara stolti á því að sjá þetta í fréttunum!