12/15/2006

Staðan

3 ritgerðir búnar. 1 próf búið.

1 ritgerð eftir. 1 próf eftir.

1239 lög með Sugababes og Girls Aloud spiluð.

20. desember er allt of langt í burtu.

12/13/2006

Enn um námið

Þar sem líf mitt snýst þessa dagana eingöngu um lærdóm, þá eru efnistök mín á þessu bloggi frekar takmörkuð.

Mig langaði bara að segja ykkur frá ritgerðinni sem ég er að skrifa núna. Ég byrjaði fyrir rúmum tveimur tímum (ó, hvað þeir liðu fljótt) og hafði þá varla hugmynd um hvað ég ætlaði að skrifa. Kveið þessari ritgerð stórkostlega.

Núna er ég búinn að skrifa alveg fullt og stend í augnablikinu frammi fyrir því að halda áfram á gagnrýnum, en þó hefðbundnum nótum (sem yrði auðvelt, því þá ætti ég bara innganginn og lokaorðin eftir) ... eða hvort ég eigi að fara í ofurgagnrýnisham og rífa í mig bók sem, ég verð að viðurkenna, mér fannst bara ansi góð.

Vegna þess að ég get það.

Eftir því sem ég skrifaði meira, því augljósara var það hverjir gallar bókarinnar voru.

Klukkan er að verða hálf tvö. Ég veit ekki hvað ég á að gera. Hvar eru samtímabókmenntagellurnar Guðrún og Kristín?? I need your help!!

Hins vegar get ég sagt ykkur það að á myspace blogginu mínu er kominn upp listi yfir bestu lög ársins 2006, according to me.

12/10/2006

I'm half full and my glass is empty

Núna er ég kominn í frí. Próflestrar-og ritgerðarskrifafrí, það er að segja. Sem er í raun og veru ekkert frí, bara nokkrir dagar til að læra á fullu þangað til ég byrja að vinna aftur.

Einhvern tímann ætla ég að taka mér alvöru frí. Í marga daga. Kannski meira að segja heila viku.

12/05/2006

Það er svo merkilegt

Það er svo merkilegt hvað heimalærdómur - og þá sérstaklega ritgerðarskrif - getur verið furðulegur hlutur. Í dag, til dæmis, hef ég verið að basla við að setja saman ritgerð um hryllingsmyndir á fræðilegum nótum (já, það er hægt). Stærstur hluti dagsins fór í það að vorkenna sjálfum mér fyrir þessi örlög. Ég vissi ekkert hvað ég átti að skrifa, hvar ég átti að byrja eða hvar ég myndi enda.

En stundum gerast kraftaverkin. Ég byrjaði bara að skrifa og viti menn, nokkrum tímum síðar er ég kominn með miklu meira en nóg efni - búinn með tíu blaðsíður (af tíu mögulegum) nú þegar, ekki byrjaður á inngangi eða lokaorðum, og á margt eftir að segja! Vandamálið verður að stytta þetta, ef eitthvað er. Og það besta er að þetta er allt nothæft, áhugavert (finnst mér) og skemmtilegt! Það er svo gaman þegar maður sleppir sér við skriftir og uppgötvar hluti sem maður hafði ekki einu sinni pælt sjálfur í. Núna sé ég t.d. myndir á borð við Friday the 13th og Carrie fyrir mér í allt öðru ljósi en fyrr í dag. Þetta bara fór allt að meika sens, eins og maður segir á góðri íslensku.

Og þetta er í raun og veru allt honum Arnaud að þakka, því ef hann hefði ekki vakið mig kl. 9 í morgun, þá væri ég örugglega ennþá sofandi núna ... Merci, Arnaud!

Núna virðast næstu tvær ritgerðir ekki eins hræðilegar! :D

12/01/2006

Dilemma (ekki með Kelly Rowland)

Jólaboð Eddu útgáfu eða Hrafnistubingó?

Eða bæði?

Eða hvorugt?

Eða hvað?

Úff, breskt power-popp

Ef það er eitthvað sem ég er veikur fyrir, þá er það popptónlist. Sérstaklega bresk popptónlist. Bretarnir hafa á síðustu árum náð að sameina bestu kosti poppsins og raftónlistar (electronica), svona svipað og Tori Amos var að fikta með ca. To Venus and Back, nema bara með meira stuði.

Að sjálfsögðu byrjaði þessi ást með Goldfrapp, en þau eru nú meiri listamenn en eitthvað annað og hljómurinn sem þau voru að fikta með á Black Cherry náði að smita útfrá sér í ólíklegustu hljómsveitir.

Eins og til dæmis Sugababes og Girls Aloud.

Ég get ekki hætt að hlusta á Girls Aloud. Þetta er farið að verða vandamál. Ekki nóg með það að nýja lagið þeirra (sjá myndbandið hér að neðan) sé alveg stórkostlegt og óþolandi ávanabindandi, þá er bæld ást mín á öllum gömlu lögunum þeirra farin að brjótast upp á yfirborðið eins og ég veit ekki hvað.

Hlustið bara á The Show, sem er kannski besta súper-elektróníska tyggjó-popplag síðustu ára. Eða Biology, sem er eins og þrjú lög í einu. Það er ekki hægt að kalla þessa tónlist formúlukennda. Hún er allt of furðuleg til þess. En virkar samt ótrúlega vel. Girls Aloud er mögnuð hljómsveit og það magnaðasta við hana er sú staðreynd að það fattar það enginn! (Það er reyndar lygi. Tónlistargagnrýnendur í Bretlandi eru farnir að "fatta" þær, eins og sést á því að nýja Greatest-Hits platan þeirra er að fá ótrúlega góða dóma!)

Og núna var ég að hlusta á nýja lagið með Sugababes. Easy. Omg. Þetta er bara of mikið! Byrjar frekar venjulega, ekkert spes ... svo kemur viðlagið ... omg ... og brúin ... omg omg omg ... Ekki jafnmikið stuð og Something Kinda Ooooh, en Sugababes voru líka alltaf alvarlegri og meira í "góðu" tónlistinni. Þetta er voða góð tónlist.