12/13/2005

Tvær góðar myndir

Hedwig and the Angry Inch
Ég veit að ég sá hana fyrir löngu en af einhverjum ástæðum gerði ég mér ekki grein fyrir því hversu ótrúlega, ótrúlega góð þessi mynd er fyrr en í kvöld. Ég held barasta að hún eigi eftir að enda með mínum uppáhaldsmyndum! "When it comes to large openings, people usually think of me ..."

Serenity
Með skemmtilegri myndum sem ég hef séð í ár, ef ekki bara sú skemmtilegasta. Og ég sem var búinn að missa trúna á vísindaskáldsögum og geimóperum. Núna langar mig að horfa á alla Firefly þættina!

12/10/2005

Magnaður dagur, eða "Dagurinn frá helvíti.

Ég vaknaði í morgun með smá hálsbólgu en ekki það mikla að hún myndi hafa áhrif á síðasta prófið mitt í háskólanum þessa önn, prófið sem ég myndi taka eftir ca. 90 mínútur. Ég fékk mér kaffi og hálsbólgan lagaðist.

Það ringdi fyrir utan. Ég ákvað að fara út með regnhlífina mína. Þar sem ég vissi líka að ég myndi ekki komast heim eftir próf, heldur fara beint í vinnu og þaðan beint í 20 ára afmæli Samfés (don't ask), þá ákvað ég að taka flotta flauelsjakkann minn með - þennan úr sléttu flaueli sem kostaði morðfjár í Jack and Jones. Svo skýldi ég jakkanum undir regnhlífinni.

Sem ég geng þessa stuttu vegalengd að aðalbyggingu HÍ þá sé ég gríðarstóran poll á gangstéttinni. Ég hef um tvennt að velja: ganga yfir pollinn og blotna kannski smá - eða ganga á grasinu við hlið stéttarinnar, en það er einnig gegnsósa regnvatni. Ég vel fyrri kostinn. Ömurleg tilviljun veldur því að regnhlífin mín flækist í trjágrein sem verður til þess að ég, í þreytu minni og dösun, misstíg mig og dett niður í stöðuvatnið sem liggur á stéttinni fyrir framan mig. Flauelsjakkinn fer náttúrulega fyrst ofan í.

En frábær byrjun á deginum.

Og svo versnaði hann.

Ég mætti í prófið. Fékk í smástund panic-attack vegna þess að ég hélt að ég hefði gleymt pennaveskinu mínu heima. Fann það samt og settist niður í sætið mitt. Og þá byrjaði það. Kvefið frá helvíti. Ímyndið ykkur versta kvef sem þið hafið haft, mesta nefrennsli sem þið hafið haft og ekkert til að stöðva það. Og ímyndið ykkur að þurfa að lifa við það í þriggja klukkutíma löngu prófi. Þetta var HELVÍTI! HELVÍTI! Ég ætla ekki einu sinni að fara út úr grófar lýsingar, en trúið mér - þær væru grófar. GRÓFAR!

Prófið gekk samt ágætlega, miðað við aðstæður. Mér tókst samt að gleyma gemsanum mínum í prófstofunni og þurfti að fara til baka og sækja hann. Sem væri ekki forsögum færandi ef ekki hefði verið fyrir það að ég nokkrum mínútum síðar uppgötvaði ég að ég hafði líka gleymt regnhlífinni minni í prófstofunni. Niðurlæging mín var algjör. Ég sendi Berglindi sambókmenntafræðinemanda mínum sms og bað hana um að taka hana fyrir mig.

Svo fór ég að vinna og komst að því að Unnur Birna varð Miss World. Til hamingju Unnur Birna!

Mér varð að orði komist síðar um kvöldið að þegar ég heyrði þessar fréttir þá fyrst missti ég andann, svo andlitið og síðast vatnið. Það hlógu fáir. En ömurlegur dagur.

12/08/2005

Tónlist eða tónsorp?

Áðan var ég að hlusta á Létt 96.7 þegar byrjar jólalag sungið af konu sem ég kannast ofsalega við röddina í. Ég spyr Baldvin hvort hann þekki hana. Hann neitar því en við erum þó báðir sammála um að þetta sé mjög Idol-legur flutningur á laginu (Have Yourself a Merry Little Christmas), með tilheyrandi ýktum stunum og óþarfa flækjum. Mér dettur helst í hug Diana DeGarmo ... en nei, eitthvað er að ... ég þekki þessa rödd betur.

Og þá lýstur því í huga mér, þessari skelfilegu uppgötvun. Þetta er ekki einhver amatör-Idolstjarna. Þetta er Christina Aguilera. Hvað er orðið um þessa stúlkukind? Hún sem var með svo fallega rödd og tókst venjulega að beita henni rétt. Núna er hún fallin í fúla gryfju Idol-áhrifa og farin að hljóma eins og annars flokks wannabe. Í alvöru. Þetta var flutningur í stíl og anda Jessicu Simpson, sem tókst að væla sig með yfirþyrmandi tilþrifum í gegnum Angels-lagið hans Robbie Williams og svo mellu-hvísla sig í gegnum These Boots Are Made For Walking.

Þessar aumingja stúlkur hafa góða rödd en enga stjórn á henni og það á ekki að leyfa þeim að leika lausum hala í stúdíóum, það veldur þeim sjálfum skaða sem og eyrum hlustenda.

Annars hef ég verið upptekinn undanfarið við prófundirbúning. Eitt próf er búið og gekk mjög vel, hitt er á laugardaginn! I can't wait, I can't waiiiiiit!