11/17/2003

Móðins

Ég hef ákveðið að beita mér fyrir því að orðið "móðins" verði aftur móðins. Þrátt fyrir að orðið sjálft sé glæsilegt með öllu, þá virðist ungdómurinn ekki hafa náð að tileinka sér það, sem er mjög leiðinlegt. Ég hvet því alla til að nota orðið "móðins" við hvert einasta tækifæri!

Helgin var viðburðarrík og erfitt að ákveða hvort sumarbústaðaferðin eða Todmobile-tónleikarnir hafi verið hápunkturinn. Kannski bara bæði betra?

Anyways, Todmobile-tónleikarnir í Laugardalshöllinni voru í einu orði sagt ótrúlegir! Ég held ég hafi bara aldrei upplifað annað eins. Þegar Andrea söng "Betra en nokkuð annað" þá fékk ég gæsahúð. Það er ótrúlegt hversu vel þessi kona syngur. En þótt Andrea hafi tvímælalaust verið kona kvöldsins, þá var Eyþór Arnalds maður kvöldsins. Krádið var alveg að dýrka nærveru hans, enda er Todmobile ekki heil hljómsveit án hans. Persónulega fannst mér að "Eldlagið" með honum hefði mátt vera aðeins kröftugra, en hann vann það upp með "Ég heyri raddir" og fleirum. Þorvaldur Bjarni er náttúrulega bara snillingur og án efa hið eina sanna Idol Íslendinga. Og djöfull kemst maðurinn hátt upp! Ég sver það að ég hélt að Andrea hefði sungið bakröddina í viðlaginu við "Í tígullaga dal" (landið er yfirvaxið ...) en nei, þetta var bara Þorvaldur að fara í hæstu hæðir! Svo eru þau öll þrjú alveg frábær á sviði. Robot-taktarnir hans Eyþór sérstaklega skemmtilegir :) Já, og "Brúðkaupslagið" var óóóóóógeðslega flott!

Eina kvörtunin sem ég hef í sambandi við tónleikana er sú að eitt af betri lögum Todmobile, "Stelpurokk" var ekki tekið. Ekki einu sinni sem eitt af tveimur aukalögum sem voru spiluð! Það var soldið pirr að fá það ekki. En hins vegar fengum við alveg ótrúlega kraftmikla útgáfu af "Stopp" - tvisvar! - svo ég kvarta ekki mikið ...

Sumarbústaðaferðin tók við beint eftir tónleikana og gerðist svo margt það að ómögulegt væri að skrásetja alla ferðina. Ég veit heldur ekki hversu mikið ég má segja ... hmmm ... get samt sagt ykkur það að ég og Vala sömdum frábæra hryllingsmynd í kringum ferðina og var hún skrifuð í gestabók sumarbústaðarins undir nafninu "Formkaka" og var bönnuð innan 12 ára. Verndari sögunnar mun vera Búbbulína, sem kom eins og kölluð úr Coco Pops pakka. Já, og Bjarni Ólafs er ekki allur þar sem hann er séður ...

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home