4/24/2004

Dimmissjón

Vá hvað gærdagurinn var frábær! Það heppnaðist allt fullkomlega - búningarnir okkar voru miklu flottari en við bjuggumst við (eiginlega bara ótrúlega flottir), atriðið okkar fékk "standing ovation" (kannski vegna þess að við fengum fólkið til að standa upp ...), og svo var djammið um kvöldið án efa eitt það skemmtilegasta sem ég hef upplifað, ef ekki það alskemmtilegasta!

Það er bara eitthvað svo æðislegt við að skemmta sér með fullt af fólki sem maður hefur verið með í skóla í fjögur ár. Hvert sem maður sneri sér var frábært fólk. Við í Kærleiksbjarnakrúinu vorum líka mjög dugleg við að faðma fólk og veita því kærleik, þó svo þau skilaboð hafi ekki alltaf komist fullkomlega til skila; Of mikill hávaði til að útskýra hlutina. En flestir voru mjög móttækilegir fyrir faðmlögunum, svo þetta var fínt.

Reyndar kom tímabil í gærkvöldi sem ég hélt að staðurinn myndi einfaldlega hrynja. Þegar fólkið á efri hæðinni hoppaði þá fann maður bara hvernig gólfið bognaði og sveigðist með. Það var þess vegna spurning um hvort maður ætti að vera þar, og detta niður ef gólfið brotnaði, eða vera niðri og verða undir gólfinu ... Ég var reyndar mest niðri vegna þess að DJ-arnir Eyþór og Jakob voru svo miklir snillingar :D Mergjað kvöld í alla staði! Og ég og Sigga fáum að endurtaka það næsta vetur! :P

Lag dagsins er, af augljósum ástæðum, hið væmna I'll Remember með Madonnu. Ef maður ímyndar sér að Madonna sé að syngja um MH þá á það oft alveg skelfilega vel við ... Ekki það að ég sé að stúdera textana hennar Madonnu, hehe. Nei, svoleiðis hluti geri ég bara við Fionu Apple, Sheryl Crow og Stevie Nicks ;)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home