11/29/2003

Ruthless! The Musical

Á blogginu sínu segir Ugla nokkur Egilsdóttir frá söngleik sem kallast Ruthless. Þar sem Ugla er þekkt fyrir, ja hvað skal segja, ýkjur, þá dreg ég ekki í efa að margir hafi álitið að lýsing hennar á söguþræði söngleikjarins hafi verið uppspuni frá rótum, enda söguþráðurinn mjög svo ... öðruvísi.

En svo er ekki. Ruthless! The Musical er til, eins og sjá má hér. Og það er hægt að kaupa hann á Amazon.com! Mikið ofsalega langar mig að hlusta á þennan disk núna ...

Fór á Mystic River í gær með Baldvin. Það er merkileg og mjög góð mynd - ein af betri myndum ársins eiginlega. En bíóferðin sem slík var ekki jafngóð.

Fyrir aftan okkur sátu tveir menn sem töluðu út alla myndina og höfðu einhverja sérkennilega þörf fyrir að kommenta á það sem var að gerast á skjánum, eins og: "Hún veit ekkert um hvað hann er að tala." Eða: "Þetta hlýtur að hafa verið vont." Og fleiri slíka gullmola. Í einu af dramatískari atriðum myndarinnar byrjaði annar þeirra að syngja - og ekki bara það, heldur söng hann "I Feel Pretty" úr West Side Story af öllum lögum! Og til að kóróna allt saman svaraði hann símanum sínum undir lok myndarinnar, talaði við manneskjuna á hinni línunni með algjöru tillitsleysi gagnvart sambíógestum sínum í smá stund og sagði loks hin ódauðlegu orð: "Nennirðu að hringja eftir smá stund, ég er í bíó."

Svona manneskjur á að banna. Ekki bara úr kvikmyndahúsum, heldur af öllum heiminum. Og með þeim má fara "Hléið" sem plagar íslenska kvikmynda(ó)menningu og eyðileggur bíómyndir.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home