1/21/2004

Köld umræða

Ég fór í bíó um daginn með Atla á Kaldaljós og fannst það frekar yfirborðsleg kvikmyndun á frekar góðri bók. Hilmar Oddsson má þó eiga það að myndin lítur ansi vel út og er á köflum mjög áhrifarík, en allt kemur fyrir ekki og er aðalgalli myndarinnar sá að hún á sér eiginlega engan tilgang. Ólíkt bókinni sem hefur mörg þemu í gangi, þá lætur myndin sér það nægja að taka valda kafla upp úr bókinni án þess að það sé einhver augljós merkingarlegur þráður sem tengir þá saman. Þetta er ekki jafnslæmt og í Englum alheimsins þar sem hoppað var frá einu yfir í annað með engum tengslum, því hér er a.m.k. samræmi í söguþræðinum, en við vitum bara einfaldlega ekki af hverju við erum að sjá það sem við sjáum. Nema ef við höfum lesið bókina. Persóna Kristbjargar Keld, Álfrún, er svo niðurlægð með því að láta hana segja okkur tilgang bókarinnar í einni setningu. Þetta er því miður ekki nóg fyrir myndina. En mér fannst tónlistin samt fín.

Ég hefði svo gaman af því að heyra hvað fólki fannst um myndina sem hefur ekki lesið bókina. Meikaði myndin eitthvað sens, symbólískt séð? Var einhver tilgangur eða boðskapur í myndinni? Mig langar virkilega að vita það, því mér fannst þetta allt saman vanta.

Annað sem mér finnst vanta almennt í íslenskri kvikmyndagerð er tilkoma stílista. Við Íslendingar eigum okkur engan Tim Burton, Brian De Palma, Dario Argento, Stanley Kubrick o.s.frv. Svíar áttu Ingmar Bergman og meira að segja Danir eiga Lars von Trier, en hér á landi fyrirfinnst enginn alvöru stílisti. A.m.k. ekki enn sem komið er ...

En úr þessu og yfir í allt annað. Nú fyrir stuttu var ég viðstaddur umræðu í MH um styttingu stúdentsprófs í þrjú ár. Persónulega er ég á móti því að menntaskólinn sé styttur því langhagkvæmast yrði að stytta grunnskólann. Ég meina, hvað erum við að gera svona merkilegt í 8, 9 og 10 ára bekk sem má ekki slengja saman eða sleppa algjörlega?

En allaveganna, "umræðan" var frekar athyglisverð vegna þess að það var eiginlega engin umræða (vegna tímaskorts), en Sigurður Kári, Kolbrún Halldórsdóttir og svo samfylkingar-talsmaðurinn sem ég man ómögulega hvað hét fengu svo sannarlega að segja hvað þeim fannst. Sérstaklega Kolbrún og Sigurður, sem voru bara bæði býsna sannfærandi og vel að máli komin. Hins vegar fann maður greinilega fyrir andúð MH-inga á aumingja Sigurði Kára, sem mér fannst reyndar rökstyðja mál sitt mjög vel (ekki það að ég sé sammála honum), en Kolbrún hefði allt eins getað mætt í MH-jakka keyptan af Atla Viðari, því hún var svo mikið að passa sig á því segja réttu hlutina við okkur. Hr. Samfylking varð svolítið útundan í þessum samræðum, enda frekar mikið miðjumoð í gangi hjá honum: ekki með nærri því eins sterkar skoðanir (eða rödd) og kollegar hans. Ég verð bara að viðurkenna það að ég man ekki nokkurn skapaðan hlut af því sem hann sagði.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home