Feimnismál
Sem ég stóð á Hlemmi í dag og beið eftir strætó þá gefur sig á tal við mig Þórgnýr Thoroddsen upp úr þurru og fórum við aðeins að tala saman. Þá fór ég að hugsa hversu óendanlega óöruggir og/eða feimnir og/eða skrýtnir Íslendingar eru. Sjáið til, Þórgnýr er ekki bara frændi minn, heldur líka með sama brennandi áhuga á kvikmyndagerð og ég, nemandi í MH (er m.a. með mér í einum tíma) og virkilega hress náungi. En ég minnist þess ekki að hafa talað við hann áður. Af hverju? Af því ég er, líkt og flestir aðrir Íslendingar, óöruggur, feiminn og skrýtinn. Ég vil þess vegna þakka Þórgný fyrir að hafa átt frumkvæðið að samræðunum, því þær gerðu annars kaldan, vindasaman dag að einhverju skemmtilegra.
Vegna þess að samræðurnar voru svo kvikmyndafræðilegar, verður bloggið í dag það einnig, eins og svo ósjaldan áður. Ástæðan fyrir bæjarferðinni var til þess að skipta út einhverjum nokkrum DVD-myndum (sem ég á önnur og betri eintök af) og fá mér einhverjar aðrar. Það var alveg ótrúlega lítið úrval af myndum sem ég vildi skipta mínum myndum út fyrir en endaði að lokum á að taka mér The Weight of Water, eftir Kathryn Bigelow, og svo Signs eftir M. Night Shyamalan. Signs er nefnilega eina myndin eftir Shyamalan sem ég fíla, þrátt fyrir ógrynni af stórum og augljósum sögugöllum. Hún er bara svo meistaralega vel gerð. M. Night kann svo sannarlega að leikstýra þó svo hann sé vita hæfileikalaus handritshöfundur. Weight of Water, hins vegar, er mynd sem mig hefur lengi langað til að sjá vegna áhugaverðs söguþráðs og svo vegna þess að ég fíla Hasarkonuna hana Bigelow í tætlur. Myndin segir semsagt frá ljósmyndara sem fær aldargamalt morðmál og heilann og vefjast saman morðmálið og saga hennar á nokkuð áhugaverðan hátt. Ansi flott mynd og kom mér skemmtilega á óvart.
Af hverju er ég að segja ykkur frá þessu? Af hverju ekki? Kannski bara til þess að, dulvitað, koma út frá mér þeirri staðreynd að ég er orðinn forfallinn DVD-fíkill. Var t.d. að panta Last House on the Left og Black Christmas af netinu á spottprís. Ég þurfti reyndar að velja klipptu, bresku útgáfuna af LHOTHL því ég tími ekki að kaupa myndir frá Ameríku. Skemmtilegt samt með bretana að þeir banna ógeðslegu atriðin úr myndinni sjálfri en leyfa þeim svo að fylgja með sem útklipptu aukaefni á sama disk. Snillingar, þessir bretar. Og svo fékk ég mér líka 28 Days Later í gær. Það er frááááábær mynd. Elska hana.
Jæja, nú er að horfa á Íslensku Tónlistarverðlaunin. Pabbi tilnefndur til tveggja verðlauna. Kannski maður sjái familíuna í sjónvarpinu?
Og núna, af því maður er að horfa á'etta, þá verð ég bara að óska honum föður mínum til hamingju með verðlaunin! Jazzflytjandi ársins 2003! Það er ekki verra. Alveg svakalega skrýtið samt hvað svona afhendingar eru taugatrekkjandi!
Vil líka óska Tryggva til hamingju fyrir besta sígilda verkið. Maður þekkir bara alla vinningshafana!
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home