5/23/2004

Long time, no sense

Jahérna, það er orðið nokkuð langt síðan ég sagði eitthvað af viti á þessari síðu. Best að kaflaskipta þessari færslu aðeins ...

Köfunin

Í þágu vísindanna og almannaheillar tók ég þátt í neðansjávarköfun nú á dögunum. Ég var ekki æfður í sundlaug eins og venjan er og var þar með ekki kastað beint í djúpu laugina (hohoho), heldur djúpa hyldýpið í Nauthólsvík. Þetta var merkileg lífsreynsla - svolítið scary á tímabili, en annars mjög skemmtileg á heildina litið. Mikið ofsalega eru kafaragræjurnar samt þungar! Svei mér þá.

Útskriftin

Ég útskrifaðist reyndar ekki, en margir vina minna gerðu það. Ég vil óska þeim öllum hjartanlega til hamingju með árangurinn. Við fórum einmitt í gær á smá útskriftardjamm og ég var, í annað skiptið á ævi minni, the designated driver og það var bara allt í lagi. Við enduðum kvöldið á Nellýs, sem er virkilega sveittur staður, komplett með lazershowi og reykeffektum.

A Farewell to Eymundsson ...

... en samt ekki alveg. Í dag var síðasti fasti vinnudagurinn minn hjá Eymundsson í bili. Dagurinn var þó algjörlega án allrar væmni eða þessháttar. Bara mjög mellow og venjulegur sunnudagur. Og talandi um bækur, þá man ég eftir því núna að ég á ennþá eftir að skila tiltekinni bók á tiltekið bókasafn á höfuðborgarsvæðinu, en hef komið mér upp döfullegri og útsmoginni áætlun í þeim efnum sem felur í sér að engin sekt verði borguð. Múhahahahaha!

Alicia Keyes

Eina lagið sem mig langar að eiga í augnablikinu (fyrir utan "Ef ég mætti mála yfir heiminn" með Siggu Beinteins) er nýja lagið með Aliciu Keyes. Það kom mér skemmtilega á óvart hversu gott það lag er, miðað við það að fyrsti singúllinn hennar af nýju plötunni var ömurlega leiðinlegt og ógeðslegt lag sem olli því að fossbleyddi úr viðkvæmum eyrum mínum í hvert skipti sem það heyrðist, sem og viðkvæmum augum mínum ef ég lenti í þeim ógöngum að þurfa að horfa á myndbandið. Ég var alveg viss um að Alicia væri búin að missa það eftir góðu fyrstu plötuna. En svo kom nýja lagið og allt er fyrirgefið! :)

Svo langar mig líka ógeðslega í nýja diskinn hennar Alanis Morissette, en eins og flestir ættu að vita þá eru ég, Dagga og Vala mestu Alanis-aðdáendur Íslands!

Og þá hef ég ekki meira að segja að þessu sinni.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home