FREDDY VS. JASON
Myndin sem ég er búinn að bíða eftir frá fæðingu. Ég meina það!
Ég var ekki mikið eldri en 8 ára þegar ég uppgötvaði fyrst Freddy Krueger. Var ég þá staddur á Stöðvarfirði og fékk frændfólk mitt til að leyfa mér að leigja Freddy's Dead: The Final Nightmare, sem var á þeim tíma síðasta (og af mörgum talin versta) myndin í Nightmare on Elm Street bálknum sem Wes Craven startaði árið 1984.
Hvorki var Freddy's Dead síðasta né versta Nightmare myndin (Freddy's Revenge, mynd nr. 2, er alömurlegasta myndin), en hún gerði mig að Freddy aðdáanda, sem ég hef og verið síðan þá.
Síðasta ár tók ég meira að segja smá Nightmare-maraþon eftir að ég keypti fyrstu myndina á DVD og horfði á allar myndirnar í seríunni, fyrir utan nr. 5 sem er illfáanleg hér á landi (enda ein af tveimur myndum sem hafa verið bannaðar á Íslandi frá upphafi!)
Friday the 13th serían er mér ekki jafnkunnug. Ég hef séð fyrstu tvær og síðustu tvær myndir þeirrar seríu (þ.e. 1, 2, JGTH og Jason X) og hef verið mishrifinn.
Fyrsta myndin er náttúrulega algjört æði, en alveg hrikalega mikið drasl á sama tíma. Mynd númer 2 er með lélegri myndum sem ég hef nokkurn tímann séð. Jason Goes to Hell er lélega skemmtileg eða skemmtilega léleg (og virkilega blóðug) og persónulega fannst mér ekkert varið í Jason X.
Auðvitað hélt ég þess vegna með Freddy, enda miklu skemmtilegri karakter yfir höfuð. Jason er bara stór, heimsk klessa og ég hef eiginlega aldrei skilið af hverju hann er ennþá vinsæll. Verð að fara að tékka á þessum myndum sem komu á milli ...
Freddy vs. Jason er algjör draumur þeirra sem eru eins og ég og ólust upp á þessum myndum. Ég er búinn að heyra í fólki sem kvartar yfir því að FvsJ sé illa leikin, að söguþráðurinn sé heimskulegur, unglingapersónurnar heimskar og fáránlegar o.s.frv. o.s.frv. ... ég bara spyr: við hverju bjuggust þessar manneskjur? Við erum ekki að tala um high-art hérna. Þetta er FREDDY VERSUS JASON! Þetta er mynd sem getur bæði sagt sig vera númer 8 og 11, eftir því hvernig á málið er litið. Og, fyrir utan New Nightmare, hafa þessar myndir einhvern tímann skartað gáfulegum söguþræði, góðum leikurum og persónum sem gera rökrétta hluti? Snúast ekki Jason myndirnar um það að hafa persónurnar eins heimskar og mögulegt er svo þær verði alveg örugglega hakkaðar í spað? Hvað er svona fólk að gera á svona myndum yfir höfuð?!
Fyrir þá sem eru ekki að leita að öðru en góðu innpútti í vel á sig komna formúlu, þá er hér til mikils að hlakka. Ronny Yu, sá æðislegi leikstjóri, færir okkur fullt af 80s blóði og ógeði og svo auðvitað T&A fyrir þá sem eru fyrir svoleiðis. Eftir frekar blóðlaus síðastliðin ár í hryllingsmyndageiranum var þetta skemmtileg tilbreyting, og trúið mér: þetta er virkilega blóðug mynd!
Ég ætla lítið að fara út í leikarana fyrir utan það að taka fram að Robert Englund var æði sem Freddy (eins og alltaf) og Kelly Rowland stóð sig alls ekkert illa, þótt hún sé í Destiny's Child! Bara sko shock surprise.
Semsagt, in short, Freddy vs. Jason er æði en bara fyrir þá sem gera sér grein fyrir því hvað það er sem þeir eru að sjá. Ef ykkur fannst The Sixth Sense vera besta hryllingsmynd síðari ára, þá skuluð þið bara sleppa þessari. Ef þið hins vegar fíluðuð Final Destination 2 eða Nightmare og Friday seríurnar tvær, þá skuluð þið endilega drífa ykkur!
Er á sama róli og ...
* Bride of Chucky - Önnur skemmtilega gerð framhaldsmynd í útdauðri seríu. Líka gerð af Ronny Yu! Júhú!
* Final Destination 2 - Fyrsta myndin í langan tíma sem gekk bara út á það að drepa fólk og hafa gaman af því, í stað þess að fela sig á bakvið póstmódernisma eða annars konar stílíseríngar.
* A Nightmare on Elm Street & Friday the 13th - Duh. Ef þið fílið ekki amk þessa tvo originala, þá skil ég ekki af hverju þið eruð að lesa þetta ...
Er betri en ...
* Allar aðrar framhaldsmyndir númer 8 og 11 sem gerðar hafa verið. Og ég lofa ykkur því!
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home